Færsluflokkur: Bloggar
7.3.2009 | 13:06
Kynningarfundur með frambjóðendum VG í SV-kjördæmi
Frambjóðendabæklingur fyrir SV er kominn á netið
Bæklingur með upplýsingum um frambjóðendur í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi er kominn á vefinn. Hægt er að nálgast bæklinginn hér.
Þeir sem vilja ganga í flokkinn geta gert það hér
Forvalið fer fram þann 14. mars næstkomandi að Hamraborg 1-3 í Kópavogi, Strandgötu 11 í Hafnarfirði og Hlégarði í Mosfellsbæ kl. 10:00 22:00. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram kl. 16.00 21.00 að Hamraborg 1-3 í Kópavogi þann 12. og 13. mars 2009. Þeir félagsmenn sem eru erlendis eða úti á landi geta óskað eftir að taka þátt í forvalinu með póstkosningu.
Sjá nánar www.vg.is.
Ég gef kost á mér í 5.-6. sæti
Helstu áherslur mínar:
Við berum ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins. Virkt og beint lýðræði þarf að styrkja og uppræta arðránskerfi auðvaldsins. Verjum kjörin og atvinnuna, endurheimtum ránsfenginn. Almenningur taki ekki á sig byrðar meðan aðrir sleppa. Bankana í almannaeigu gegnsæi í fjármálakerfinu. Stöðvum einkavæðingu í almannaþjónustu auðlindir í þjóðareign. Fleiri fyrirtæki í almannaeigu, verjum athafnafrelsi einstaklinga og almennings gegn stórfyrirtækjum, samvinnu ekki síður en samkeppni. Styttum vinnutímann verjum réttinn til letinnar. Alþjóðahyggja: alþjóðleg samvinna og viðskipti taki mið af hagsmunum almennings. Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum Ísland úr NATO. Kapítalískar stórríkislausnir Evrópusambandsins eru úreltar.
Sjá nánar:
http://notendur.centrum.is/~einarol
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2009 | 22:16
Opinn fundur um prófkjör VG
Rauður vettvangur stendur fyrir opnum fundi um prófkjör Vinstri-grænna.
Skorað er á frambjóðendur, kjósendur og aðra áhugasama að mæta.
Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87
Stund: Þriðjudagur 3. mars kl. 20:00
Og væntanlega mun ég mæta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2009 | 16:13
Gef kost á mér í 5.-6. sæti hjá VG í SV-kjördæmi
Ég hef sent kjörstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í suðvesturkjördæmi tilkynningu um að ég gefi kost á mér í 5. til 6. sæti í forvali flokksins 14. mars nk. Ég hef sent út fréttatilkynningu, sem er hér að neðan, og jafnframt tekið saman helstu áherslur mínar og birt hér, auk þess sem þær eru hér fyrir neðan fréttatilkynninguna.
Fréttatilkynning
Einar Ólafsson gefur kost á sér í 5. til 6. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis vorið 2009.
Einar er 59 ára gamall bókavörður og rithöfundur, búsettur í Kópavogi. Hann hefur verið virkur á vinstri væng stjórnmálanna síðan um 1970, í Fylkingunni meðan hún starfaði, ýmsum andheimsvaldasinnuðum samtökum og Samtökum hernaðarandstæðinga. Þá hefur hann tekið virkan þátt í starfi stéttarfélags síns, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og sat um skeið í stjórn BSRB. Hann hefur starfað með Vinstri grænum frá stofnun flokksins. Einar er kvæntur Guðbjörgu Sveinsdóttur geðhjúkrunarfræðingi og á þrjú uppkomin börn.
Einar leggur áherslu á að kreppan er auðvaldskreppa sem almenningur ber ekki ábyrgð á. Nú er brýnast að verja kjör almennings og atvinnu, hraða rannsókn á hruni fjármálakerfisins og beita öllum tiltækum ráðum til að frysta eignir auðmanna og gera þær upptækar. Ef almenningur á að sýna hófsemi í kjaramálum verður að vera tryggt, að þeir sem betur mega taki á sig byrðarnar að sama skapi, bókhald fyrirtækja verður að vera opið og allri leynd launa og annarra tekna verði aflétt. Bankarnir verði áfram í almannaeigu og gegnsæi verði tryggt í fjármálakerfinu. Einkavæðing í almannaþjónustu verði stöðvuð, velferðarkerfið styrkt og auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar. Koma þarf í veg fyrir að stórfyrirtæki sölsi allt undir sig, athafnafrelsi almennings og einstaklinga verði varið gegn þeim, fyrirtækjum í almannaeigu fjölgi. Lögð verði áhersla á fjölbreytni í atvinnumálum um allt land í stað áframhaldandi uppbyggingar stóriðju. Sjálfbær þróun og umhverfisvernd eru lífsnauðsyn. Stefna ber að styttingu vinnutímans. Samvinna er ekki síður mikilvæg en samkeppni, slökun ekki síður en athafnasemi. Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum og aðildinni að NATO sagt upp. Ísland gangi ekki í ESB. Lögð verði áhersla á alþjóðlegt samstarf, m.a. við að breyta alþjóðlegu fjármála- og skattakerfi í því skyni að takmarka fjármálabrask, flutning fyrirtækja milli landa og vald stórfyrirtækja. Kerfi alþjóðlegra fjármála- og viðskiptastofnana verði umbylt og stefnt að alþjóðlegri samvinnu um fjárfestingar í innviðum samfélaga með hagsmuni almennings og umhverfisvernd að leiðarljósi. Alþjóðlegir samningar um kjör og réttindi verkafólks verði styrktir.
Almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins
Helstu áherslur Einars Ólafssonar í forvali VG, SV-kjördæmi, í 14. mars 2009
- Kreppan á rætur í auðvaldshagkerfinu
- Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera pólitíska ábyrgð á kreppunni
- Alþýðan þarf öflugan stjórnmálaflokk
- Virkt og beint lýðræði þarf að styrkja
- Arðránskerfi auðvaldsins þarf að uppræta
- Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar
- Verjum kjörin og atvinnuna, endurheimtum ránsfenginn
- Almenningur taki ekki á sig byrðarnar meðan aðrir sleppa
- Bankana í almannaeigu gegnsæi í fjármálakerfinu
- Stöðvum einkavæðingu í almannaþjónustu auðlindir í þjóðareign
- Fleiri fyrirtæki í eigu almennings, verjum athafnafrelsi einstaklinga og almennings gegn hákörlum, eflum samvinnu ekki síður en samkeppni
- Styttum vinnutímann slökum á, verjum réttinn til letinnar jafnt og réttinn til vinnunnar
- Alþjóðahyggja: alþjóðleg samvinna og viðskipti taki mið af hagsmunum almennings
- Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum Ísland úr NATO
- Kapítalískar stórríkislausnir Evrópusambandsins eru úreltar
Greinargerð:
Brýnt er að hafa það að leiðarljósi að almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins.
Kreppan á rætur í auðvaldshagkerfinu
Sú kreppa sem nú ríkir stafar ekki fyrst og fremst af ófullkomnu lýðræði, flokksræði eða flokkakerfinu á Íslandi. Kreppan stafar af því hagkerfi sem við búum við, auðvaldshagkerfinu, og þeirri miskiptingu, arðráni og stéttaskiptingu sem því fylgir. Auðstéttin hóf á heimsvísu sókn til meiri gróða undir lok síðustu aldar, meðal annars með því að sölsa undir sig almannaeigur, og æ meira vald var selt í hendur handhöfum fjármagnsins og stórfyrirtækjanna. Í þeirri miklu gróðasókn var beitt öfgakenndri útgáfu af hugmyndafræði auðvaldsins, frjálshyggjunni.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera pólitíska ábyrgð á kreppunni
Þessi sókn auðstéttarinnar hófst hér fyrir alvöru með myndun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar árið 1991 og þó sérstaklega með stjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn frá 1995. Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er fyrst og fremst að þjóna hagsmunum auðvaldsins og það hefur hann svo sannarlega gert á undanförnum tveimur áratugum, fyrst og fremst með aðstoð hins borgaraflokksins, Framsóknarflokksins, og að nokkru leyti með aðstoð Alþýðuflokksins í upphafi og Samfylkingarinnar undir lokin, enda voru þeir báðir smitaðir af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar eins og sósíaldemókratískir flokkar víða annars staðar. Einungis Vinstrihreyfingin grænt framboð, sem var stofnuð snemma árs 1999, hefur af einurð staðið vörð um hagsmuni almennings.
Alþýðan þarf öflugan stjórnmálaflokk
Flokkakerfið, eins og það er nú, endurspeglar hið stéttskipta samfélag auðvaldskerfisins. Meðan hluti samfélagsins hefur yfirráð yfir fjármagninu og fyrirtækjunum mun hann einnig hafa meiri aðgang að völdum en aðrir og hann mun beita pólitískum tækjum til þess, þar á meðal stjórnmálaflokkum. Mikilvægt er að almenningur hafi einnig öflugan og einarðan stjórnmálaflokk sem berst fyrir hagsmunum hans, ef ekki á byltingarsinnuðum forsendum þá á róttækum umbótasinnuðum forsendum, flokk sem samþættir sósíalíska framtíðarsýn, alþjóðahyggju, umhverfisstefnu, mannréttindi og jafna stöðu kynjanna. Á þeim forsendum tek ég þátt í starfi og þróun VG.
Virkt og beint lýðræði þarf að styrkja
Almenningur á að hafa sem mesta aðkomu að jafnt pólitískri sem efnahagslegri stefnumótun ákvörðunum. Þær mega ekki lokast inni í skrifræðislegum, klíkubundnum og stofnanagerðum stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum eða öðrum hagsmunasamtökum. Sífellt þarf að leita leiða til að gera stjórnkerfið lýðræðislegra, stefna þarf að endurskoðun stjórnarskrárinnar og mikilvægt er að halda uppi gagnrýni á flokka og samtök alþýðu. En að leggja þessa flokka eða samtök að jöfnu við flokka og samtök auðstéttarinnar er einungis til þessa fallið að færa henni vopn í hendurnar. Misskipting og stéttaskipting auðvaldssamfélagsins mun alltaf takmarka raunverulegt lýðræði. Þótt umbætur í stjórnkerfinu séu mikilvægar, þá verða þær alltaf takmarkaðar meðan auðvaldið er ekki upprætt.
Arðránskerfi auðvaldsins þarf að uppræta
Það er stöðugt verkefni að brjóta niður auðvaldskerfið, kerfi misskiptingar, arðráns og stéttaskiptingar. En sundruð verkalýðsstétt, í víðri merkingu þess orðs, óljós stéttarvitund og hikandi verkalýðshreyfing tefja það verkefni jafnt hér sem á alþjóðavísu. Verkefni okkar hér og nú er að lágmarka þann skaða sem kreppa auðvaldsins veldur almenningi, en jafnframt þarf að horfa fram til þess hvernig hægt er að uppræta þetta arðránskerfi.
Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar
Við núverandi stöðu í stjórnmálum landsins er vænlegast að stefna að ríkisstjórn félagshyggjuflokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingar, þótt Samfylkingin hafi flekkað hendur sínar með stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, hentistefnu og gælum við ýmsa þætti nýfrjálshyggjunnar. Hugsanlegt er samstarf við Frjálslynda flokkinn eða nýja flokka/framboð ef til kemur. Sjálfstæðisflokknum verður hins vegar skilyrðislaust að halda frá völdum og aðild Framsóknarflokksins að ríkisstjórn yrði algert neyðarúrræði.
Verjum kjörin og atvinnuna, endurheimtum ránsfenginn
Tvennt er nú mest aðkallandi:
- að verja heimilin í landinu, verja kjör almennings, verja velferðarkerfið og atvinnufyrirtækin.
- að hraða sem mest rannsókn á hruni fjármálakerfisins og orsökum þess og beita öllum ráðum til að frysta eignir auðmanna, ránsfenginn, og gera hann upptækan eða þjóðnýta.
Við þetta skal öllum tiltækum ráðum beitt og duga engin vettlingatök. Verkalýðshreyfingin verður að veita stjórnvöldum stuðning og aðhald við þessi verkefni og beita til þess öllu afli sínu.
Almenningur taki ekki á sig byrðarnar meðan aðrir sleppa
Fráleitt er að verkalýðsstéttin og aðrir hópar alþýðufólks taki á sig ábyrgð og sýni hófsemi í kjaramálum sem býður upp á kjaraskerðingu ef ekki er tryggt að þeir sem betur mega taki á sig byrðarnar að sama skapi. Frestun kjarasamninga verður að vera með því skilyrði að allt bókhald fyrirtækjanna sé opið almenningi, allri launaleynd eða tekjuleynd sé aflétt og klárt sé að gróði af atvinnurekstri eða fjármálastarfsemi skili sér til samfélagsins á einhvern hátt, í formi skatta, með atvinnuuppbyggingu eða á annan hátt.
Bankana í almannaeigu gegnsæi í fjármálakerfinu
Bankarnir eiga að vera áfram í almannaeigu, hvaða form sem yrði á því. Tryggja þarf gegnsæi í fjármálakerfinu og virkt eftirlit þings og almennings með bönkum og fjármálastofnunum. Mikilvægt er að horfa til sérstöðu bankastarfsemi, sem á eingöngu að vera þjónusta við samfélagið og er sem fjármálaþjónusta annars eðlis en önnur þjónusta.
Stöðvum einkavæðingu í almannaþjónustu auðlindir í þjóðareign
Stöðva þarf einkavæðingu í almannaþjónustu. Tryggja ber að auðlindir verði í almannaeigu og fiskkvótanum þarf að koma í hendur þjóðarinnar.
Fleiri fyrirtæki í eigu almennings, verjum athafnafrelsi einstaklinga og almennings gegn hákörlum, eflum samvinnu ekki síður en samkeppni
Samkeppniseftirlit þarf að efla, en huga jafnframt að inntaki þess og tilgangi, setja skorður við stærð einkafyrirtækja og koma í veg fyrir myndun fyrirtækjakeðja. Koma þarf í veg fyrir að stórfyrirtæki ryðji metnaðarfullum smáfyrirtækjum úr vegi þar sem einkarekstur er eðlilegur. Stuðla ber að stofnun lýðræðislega rekinna fyrirtækja í almannaeigu, svo sem samvinnufyrirtækja eða fyrirtækja að öllu eða einhverju leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Samvinna er ekki síður mikilvæg en samkeppni. Auka þarf fjölbreytni í atvinnumálum og efla matvælaframleiðslu, hvort sem er til sjávar eða sveita. Frekari uppbyggingu stóriðju ber að stöðva og gera þarf áætlun um vikjun orkulinda til langs tíma með umhverfisvernd og hagsmuni óborinna kynslóða í huga.
Styttum vinnutímann slökum á, verjum réttinn til letinnar jafnt og réttinn til vinnunnar
Þótt nú sé mikilvægt að standa vörð um atvinnufyrirtækin og stuðla að atvinnusköpun er vert að líta til möguleika á styttingu vinnutímans sem fyrst og hverfa frá þeirri hagvaxtarhyggju sem sífellt knýr á sköpun atvinnu á forsendum aukinnar neyslu og gerviþarfa með tilheyrandi mengun og streitu. Réttinn til letinnar þarf að setja til jafns við réttinn til vinnunnar.
Alþjóðahyggja: alþjóðleg samvinna og viðskipti taki mið af hagsmunum almennings
Brýnt er að horfa ekki einangrað á vandamál hér innanlands enda er kreppan alþjóðleg og um allan heim eru uppi umræður um lausnir á þeim vanda sem hún hefur skapað og um aðra stefnu í samfélags- og efnahagsmálum.
Ný ríkisstjórn þarf að taka höndum saman við framsæknar ríkisstjórnir og önnur öfl erlendis um ýmsar umbætur á alþjóðavísu, svo sem:
- Efla samvinnu milli landa bæði alþjóðlega og svæðisbundna.
- Viðskipti milli landa taki mið af hagsmunum almennings, umhverfisvernd og sjálfbærri þróun.
- Loka öllum skattaskjólum.
- Koma á alþjóðlegu skattakerfi sem kemur í veg fyrir flutning fjármagns og fyrirtækja í hagstæðara skattaumhverfi og dregur úr valdi og umsvifum stórfyrirtækja.
- Gera alþjóðlegt samkomulag um skatt á fjármagnsfærslur í ágóðaskyni (Tobin-skatt).
- Leggja niður í áföngum Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðkiptastofnunina. Þess í stað verði komið á fót alþjóðlegum stofnunum eða einhverjum vettvangi fyrir alþjóðlega samvinnu sem hefur sjálfbæra þróun, jöfnuð og félagslegt og efnhagslegt öryggi fyrir almenning að leiðarljósi.
- Stefnt verði að alþjóðlegu samstarfi við að efla innviði samfélaga með hag almennings og umhverfisvernd að leiðarljósi.
- Lögð verði áhersla á fæðuöryggi og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
- Alþjóðlegir samningar um kjör og réttindi verkafólks verði styrktir.
Ísland verði friðlýst fyrir gereyðingarvopnum Ísland úr NATO
Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og öðrum gereyðingarvopnum, lýst herlaust land og aðildinni að NATO verði sagt upp. Ísland hafi frumkvæði að friðlýsingu Norðurlanda, Evrópu og loks Norður-Atlantshafsins.
Kapítalískar stórríkislausnir Evrópusambandsins eru úreltar
Evrópusambandið verður æ meiri tímaskekkja í núverandi mynd, enda byggist það að verulegu leyti á hugmyndum í frjálshyggjustíl um frjálst flæði fjármagns, vöru og þjónustu innan stórríkis, sem fyrst og fremst tryggir olnbogarými fyrir handhafa fjármagnsins en takmarkar áhrif almennings. Aðild að ESB er rökrétt ef við ætlum aftur út í þann straum sem við höfum borist með að undanförnu og láta aðra ráða fyrir okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2009 | 22:23
„Hvað ef“
Staðan í okkar samfélagi væri allt önnur ef Ísland væri hluti af Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu." Þannig hefst grein Sigrúnar Elsu Smáradóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar undir fyrirsögninni Hvað ef" í Morgunblaðinu 15. febrúar.
Ég varð eiginlega kjaftstopp þegar ég las þetta. Hér var búið að þenja fjármálakerfið svo út að það var orðið margfalt á við hagkerfi Íslands og braskið orðið slíkt að það skilur varla nokkur maður í því, tiltölulega fámennir hópur auðmanna var búinn að sjúga út úr því óhemju auð sér til handa, í þeirra hópi voru tugir eða hundruð milljóna orðnir að vasapeningum samtímis því sem stjórnvöld réðust í ótrúlegar virkjanaframkvæmdir og byggingaframkvæmdir sem skila sér nú í heilu úthverfuunm þar sem hús standa auð og óhemjulegt fjármagn liggur í gagnslausum götum og holræsakerfum.
Fyrirgefiði. Væri ekki nær að orða þetta svona: Staðan í okkar samfélagi væri allt önnur ef bankarnir hefðu ekki verið einkavæddir og seldir í hendur bröskurum, ef eitthvert vit hefði verið í regluverki í kringum fjármálakerfið, ef lóðabröskurum hefði ekki verið gefinn laus taumurinn, ef sveitarfélög hefðu ekki farið í fáránlega samkeppni um lóðaúthlutanir, ef ekki hefði verið einblínt á stóriðju og virkjanir o.s.frv.
Auðvitað er vandasamt að vera með lítið hagkerfi, myntin í því er sjálfsagt viðkvæm. En það er ekki íslensku krónunni að kenna að við, íslenskur almenningur, þurfum nú að borga fyrir brask og óraunhæfa skuldsetningar sem var löngu búið að vara við. Evra eða pund eða dollar hefðu ekki komið í veg fyrir það. Ég veit ekki betur en almenningur í evrulöndunum, Bretlandi, Bandaríkjunum og víða annars staðar sé að núna borga það sem braskarar hafa verið að stela. Hér varð þetta meira, ekki vegna þess að við höfðum sérstaka mynt, heldur einfaldlega af því að braskið, þjófnaðurinn sjálfur, var meira miðað við stærð hagkerfisins en annars staðar og stjórnvöld ósvífnari en víðast hvar annars staðar í þjónkun sinni við þjófana.
Væri ekki nær að reyna að hafa uppi á þjófunum og ránsfengunum og koma í veg fyrir að svona þjófagengi komist aftur á skrið, frekar en að gleyma sér yfir því hvort einhver annar lás hefði gagnast betur? Það er nefnilega alveg kristaltært að einbeittir þjófar láta lásinn ekki stöðva sig, hvort sem hann er heimasmíðaður eða innfluttur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1. febrúar lauk í bænum Belém do Pará í norðanverðri Brasilíu Alþjóðlega samfélagsvettvangnum, World Social Forum, sem hófst 27. janúar. Hátt í hundrað þúsund manns söfnuðust þarna saman til að ræða hvernig hægt er að skapa öðruvísi veröld.
Þessar samkomur spruttu upp úr andófshreyfingunni gegn nýfrjálshyggjunni og hnattvæðingunni sem fór að vaxa upp fyrir rúmum tíu árum. Þetta er ekki beinlínis þing eða ráðstefna heldur vettvangur, forum, þar sem ótal samtök og hreyfingar skipuleggja allskonar fundi og samkomur (það má svo deila um hvort þetta sé heppilegasta þýðingin).
Fyrsti Alþjóðlegi samfélagsvettvangurinn var í bænum Porto Alegre í Brasilíu í janúar 2001, en sá tími var valin vegna þess að á sama tíma halda kapítalistarnir og pólitískir þjónar þeirra sína árlegu alþjóðaráðstefnu, World Economic Forum, í bænum Davos í Sviss. Einnig hafa samsvarandi samkomur verið haldnar víðsvegar um heim, fyrir einstök svæði, lönd eða borgir. Þannig var evrópskur samfélagsvettvangur í Malmö í Svíþjóð í september síðastliðnum.
Frá upphafi hefur það verið venja á þessum samkomum að ýmis samtök og hreyfingar koma saman á fundi sem kallast Þing félagslegra hreyfinga (Assembly of Social Movements) og senda frá sér stefnumarkandi yfirlýsingu. Yfirlýsingin birtist hér lauslega þýdd eftir:
DECLARATION OF THE ASSEMBLY OF SOCIAL MOVEMENTS AT THE WORLD SOCIAL FORUM 2009:
We wont pay for the crisis. The rich have to pay for it !
http://www.cadtm.org/spip.php?article4087
Sjá einnig. http://www.fsm2009amazonia.org.br/
Yfirlýsing frá Þingi félagslegra hreyfinga á Aþjóðlega samfélagsvettvangnum 2009
Við borgum ekki fyrir kreppuna. Auðmennirnir verða að borga fyrir hana!
Við þurfum aðra kosti, sem beinast gegn heimsvaldastefnu og auðvaldstefnu en byggjast á femínisma, umhverfisstefnu og sósíalisma.
Við, félagslegar hreyfingar allsstaðar að úr heiminum, komum saman á áttunda Alþjóðlega samfélagsvettvangnum í Belém í Amazoníu, þar sem alþýðan hefur andæft ránstilraunum á landi hennar og menningu og náttúrunni allri. Við erum hér í Rómönsku Ameríku þar sem félagslegar hreyfingar og hreyfingar frumbyggja hafa á undanförnum áratug tekið höndum saman og gera út frá heimssýn sinni alvarlegar athugasemdir við auðvaldskerfið. Á undanförnum árum hefur róttæk þjóðfélagsbarátta knésett ríkisstjórnir, sem hafa fylgt nýfrjálshyggjunni, og búið þess í stað í haginn fyrir ríkisstjórnir, sem hafa komið fram ýmsum jákvæðum umbótum, svo sem þjóðnýtingu grundvallarþátta efnahagskerfisins og lýðræðislegum stjórnarbótum.
Í þessu samhengi hafa félagslegar hreyfingar í Rómönsku Ameríku brugðist við með viðeigandi hætti og ákveðið að styðja þær jákvæðu ráðstafanir, sem þessar ríkisstjórnir hafa gert, en samtímis tekið gagnrýna afstöðu til þeirra. Þetta mun styrkja staðfasta andspyrnu alþýðunnar gegn þeirr stefnu ríkisstjórna, fyrirtækja og banka að færa byrðar kreppunnar yfir á herðar hinna kúguðu. Við, félagslegar hreyfingar heimsins, stöndum nú frammi fyrir sögulegu verkefni. Alþjóðleg kreppa auðvaldsins er hættuleg mannkyninu á ýmsa vegu: hún hefur áhrif á fæðuöflun, fjármálakerfið, efnahagskerfið, loftslagið, orkubúskap, fólksflutninga... og sjálfa siðmenninguna, þar sem þetta er einnig kreppa heimsskipunar og stjórnmálakerfa.
Við stöndum frammi fyrir heimskreppu, sem er bein afleiðing auðvaldskerfisins, og þess vegna verður engin lausn fundin innan þess kerfis. Allar ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar til að yfirvinna kreppuna, beinast einungis að því að velta kostnaði hennar yfir á almenning í því skyni að bjarga kerfi, sem byggist á einkavæðingu grunnþátta efnahagslífsins, almannaþjónustu og orkulinda og viðskiptavæðingu lífsins og arðráni vinnunnar og náttúrunnar ásamt því að færa auðinn frá jaðrinum til miðjunnar og frá verkafólki til auðstéttarinnar.
Núverandi kerfi er byggt á arðráni, samkeppni og einkahagsmunum á kostnað almannahagsmuna og á brjálæðislegri uppsöfnun auðs á hendur lítils hóps auðmanna. Það veldur blóðugum styrjöldum, kyndir undir fordómum, kynþáttahyggju og trúarlegum öfgastefnum; það stuðlar að kvennakúgun og ofsóknum á hendur félagslegum hreyfingum. Núverandi kreppa grefur skipulega undan réttindum almennings.
Villimannleg árás ísraelsku ríkisstjórnarinnar á palestínsku þjóðina er brot á alþjóðalögum og jafngildir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og í henni birtist höfnun á þjóðarrétti sem einnig má sjá víðar í heiminum. Það er til skammar að þetta sé látið viðgangast refsilaust og það verður að stöðva. Hinar félagslegu hreyfingar ítreka stuðning sinn við baráttu palestínsku þjóðarinnar sem og við alla baráttu gegn kúgun alþýðu um allan heim.
Í því skyni að sigrast á kreppunni verðum við að komast fyrir rætur vandans og byggja upp eins hratt og frekast er unnt róttækan valkost sem getur rutt auðvaldskerfinu burt. Við verðum að byggja upp samfélag sem uppfyllir samfélagslegar þarfir, virðir náttúruna og styður lýðræðislega þátttöku og fullt pólitískt frelsi. Við verðum að sjá til þess að öllum alþjóðlegum sáttmálum um jöfn borgaraleg, pólitísk, efnahagskeg, félagsleg og menningarleg réttindi, bæði eintaklingsbundnin og almenn, verði komið í framkvæmd.
Í þessu skyni munum við leggja okkar af mörkum til að fylkja fjöldanum saman sem mest má vera til að hrinda í framkvæmd aðkallandi ráðstöfunum, svo sem að:
- þjóðnýta bankana án skaðabóta og undir fullu eftirliti almennings;
- stytta vinnutímann án launalækkana;
- gera ráðstafanir til að tryggja fæðuöruggi og yfirráð yfir orkulindum;
- binda endi á styrjaldir, flytja hernámslið á brott og leggja niður herstöðvar;
- viðurkenna fullveldi og sjálfstæði þjóða og tryggja sjálfsákvörðunarrétt þeirra;
- tryggja rétt til lands, vinnu, menntunar og heilbrigðisþjónustu fyrir alla;
- tryggja lýðræðisleg samskipti og aðgang að þekkingu.
Hin félagslega frelsisbarátta, sem femínískar og sósíalíkar hreyfingar og umhverfishreyfingar munu heyja á 21. öldinni, miða að því að frelsa samfélagið undan yfirráðum auðvaldsins yfir framleiðslunni, samskiptatækjum og almannaþjónustu. Þróa þarf eignarform sem stuðla að almannahagsmunum: litlar fjölskyldueignir, almannaeignir, samvinnueignir og eignir sveitarfélaga og þjóðfélaga.
Slíkur valkostur mun óhjákvæmilega verða femínískur þar sem útilokað er að byggja upp samfélag sem byggist á félagslegu réttlæti og jafnrétti ef helmingur mannkyns er kúgaður og arðrændur.
Síðast og ekki síst er það ásetningur okkar að stuðla að uppbyggingu samfélags þar sem allt líf fær að njóta sín í samræmi innbyrðis og út á við gagnvart öllum umheiminum og virk þátttaka og framlag frumbyggja er virt.
Við, hinar félagslegu hreyfingar, stöndum frammi fyrir sögulegu tækifæri til að þróa frelsisbaráttu á heimsvísu. Aðeins með félagslegri baráttu fjöldans verður kreppan yfirunnin. Til að stuðla að þessari baráttu er mikilvægt að vinna að vitundarvakningu og virkja grasrótina. Verkefni félagslegu hreyfinganna er að byggja upp fjöldahreyfingu á heimsvísu. Til þess þurfum við að styðja samvinnu allra þeirra hreyfinga sem berjast gegn kúgun og arðráni.
Í því skyni munum við á næstunni vinna að:
- alþjóðlegri aðgerðaviku gegn kapítalisma og stríði 28. mars til 4. apríl 2009.
Í henni verða meðal annars:
- aðgerðir vegna G20-fundarins 28. mars;
- aðgerðir gegn stríði og kreppu 30. mars;
- samstöðudagur með palestínsku þjóðinni til að hvetja til viðskiptabanns gegn Ísrael 30. mars;
- aðgerðir gegn NATO 4. apríl.
Stefnt er að öflugum aðgerðum á ýmsum hefðbundum baráttudögum:
- 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna,
- 17. apríl, alþjóðlegum baráttudegi fyrir fæðuöryggi,
- 1. maí, alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins,
- 12. október, alþjóðlegum baráttudegi fyrir Móður Jörð og gegn nýlendustefnu og viðskiptavæðingu lífsins.
Einnig má nefna aðgerðir vegna G8-fundarins á Sardiníu, loftlagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, Ameríkuráðstefnunnar á Trinidad og Tobago o.s.frv.
Slíkar aðgerðir og kröfur eru liður í viðbrögðum við kreppunni þar sem leitað er róttækra lausna.
(Einar Ólafsson þýddi lauslega)
Bloggar | Breytt 10.2.2009 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2009 | 22:20
Allsherjarverkfall!
Eftirfarandi grein birtist í Fréttabréfi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem kom út nú rétt fyrir helgina. Rétt er að geta þess að greinin var skrifuð fyrir tveimur vikum og síðan hefur margt gerst. Það var auðvitað von mín, þegar greinin var skrifuð, að ekki þyrfti að grípa til aðgerða á borð við verkföll. Sú von hefur óneitanlega styrkst, og vissulega hefur ný ríkisstjórn þegar orðið við ákveðnum kröfum mótmælahreyfingarinnar. En annars er greinin áfram í fullu gildi.
Kjarasamningarnir sem við gerðum í haust voru bráðabirgðasamningar. Nýlega var skollið á efnahagslegt neyðarástand og engar aðstæður til að gera öðruvísi samninga en þá voru gerðir. Vonlaust var að boða verkfall til að knýja fram frekari kröfur, það hefði bara valdið enn frekari vandræðum. Við urðum að skapa okkur frest fram yfir áramót. Öllum kjarasamningum, sem voru gerðir kringum mánaðamót nóvember og desember, fylgdi yfirlýsing þar sem samningsaðilar lýstu fullum vilja til að beita sér fyrir og taka þátt í að ná víðtækri sátt um launa- og kjarastefnu til ársins 2010 vegna þeirra kjarasamninga sem eru til endurskoðunar eigi síðar en 15. febrúar 2009 og þeirra kjarasamninga sem renna út 2009.
Það eru sjálfsagt ekki aðstæður til að einblína á verulegar launahækkanir að svo stöddu. Fjölmörg fyrirtæki er á barmi gjaldþrots, atvinnuleysi fer vaxandi og spáð er að 20 þúsund manns verði á atvinnuleysisskrá í apríl og maí. Hins vegar verðum við líka að líta til þess, að það efnahagslega neyðarástand, sem nú ríkir, stafar ekki af náttúruhamförum eða harðæri, heldur er það algerlega af mannavöldum. Braskarar nýttu sér aðstæður, sem stjórnvöld höfðu skapað, til að raka að sér fé sem þeir í raun stálu af almenningi.
Og þess vegna hefur alþýðan safnast saman, þúsundum saman, á Austurvelli á hverjum laugardegi í meira en fjóra mánuði, auk ótal annarra funda. Hún krefst þess að hinir ábyrgu verði dregnir til ábyrgðar, stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og þjófarnir sem frömdu glæpi sína í skjóli stjórnvalda. En það er ekki hlustað á hana, valdhafarnir kalla hana skríl.
En fólkið má ekki gleyma því að það á sér samtök sem voru stofnuð til að verja kjör þess. Flestir eru í einhverju stéttarfélagi. Almenningur verður að knýja stéttarfélög sín til taka undir kröfurnar og beita afli sínu til að þær verði virtar. Stéttarfélögin mega ekki sitja hjá meðan almennir félagar þeirra safnast saman á mótmælafundum.
Í komandi samningum verður verkalýðshreyfingin að taka undir þessar kröfur og hún verður að krefjast þess að allt verði gert til að ná þýfinu aftur af þjófunum. Almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins og það má aldrei verða sátt um að hann einn taki á sig byrðarnar af henni.
Við gerðum bráðarbirgðasamninga í haust og gáfum stjórnvöldum þannig frest til að bregast við. Og nú er kominn tími til að gera kröfur og þá fyrst og fremst á hendur stjórnvöldum, því það er þeirra að grípa til aðgerða til að jafna kjörin í landinu, tryggja stöðu atvinnuveganna, treysta velferðarkerfið og búa þannig í haginn til að tryggja kjör almennings.
Þessar kröfur þarf að útfæra og gera skýrar þannig að við getum fylgt þeim eftir. Og undir það þurfum við að búa okkur. Við þurfum að búa okkur undir hverskyns aðgerðir sem gætu orðið að gagni, þ.á.m. verkfallsaðgerðir. En þær verða að miðast við aðstæður, og þá má t.d. hugsa sér stutt táknrænt allsherjarverkfall og síðan skæruverföll dugi það ekki. Ef mesta arðrán Íslandssögunnar er ekki tilefni til að brýna verkfallsvopnið, hvenær þá?
Sjá líka:
Brýnum stéttarfélögin
St. Rv. krefst þess að ránsfengnum verði skilað
Kjarasamningar - enn skal ítrekað: verkalýðurinn ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2009 | 23:53
Alþjóðlega samfélagsvettvangnum lokið Belém í Brasilíu
Birtist á Friðarvefnum 1. febrúar.
Í dag, 1. febrúar, lauk í bænum Belém do Pará í norðanverðri Brasilíu níunda alþjóðlega samfélagsvettvangnum, World Social Forum, sem hófst 27. janúar. Hátt í hundrað þúsund manns söfnuðust þarna saman til að ræða hvernig hægt er að skapa öðruvísi veröld.
Þessar samkomur spruttu upp úr andófshreyfingunni gegn nýfrjálshyggjunni og hnattvæðingunni sem fór að vaxa upp fyrir rúmum tíu árum. Fyrsti alþjóðlegi samfélagsvettvangurinn var í bænum Porto Alegre í Brasilíu í janúar 2001, en sá tími var valin vegna þess að á sama tíma halda kapítalistarnir og pólitískir þjónar þeirra sína árlegu alþjóðaráðstefnu, World Economic Forum, í bænum Davos í Sviss. Einnig hafa samsvarandi samkomur verið haldnar víðsvegar um heim, fyrir einstök svæði, lönd eða borgir. Þannig var evrópskur samfélagsvettvangur í Malmö í Svíþjóð í september og er frásögn af honum að finna vef MFÍK.
Það má segja að varnaðarorð þessara hreyfingar séu nú virkileg að koma fram í þeirri heimskreppu sem er að ríða yfir. Það þótti dapurleg stemning í Davos núna og efnahagskreppan setti að sjálfsögðu einnig svip á samkomuna í Belém. En þar var þó allt með öðrum brag, talsvert litríkari, og þar var haldið áfram umræðum undanfarinna ára um öðruvísi veröld en þá sem einkennst hefur af gróðahyggju, arðráni, rányrkju og hernaðarstefnu. Þar ríkti ekki söknuður eftir horfinni veröld heldur von um nýja og betri veröld.
Terraviva - IPS-Inter Press Service
DECLARATION OF THE ASSEMBLY OF SOCIAL MOVEMENTS AT THE WORLD SOCIAL FORUM 2009: We wont pay for the crisis. The rich have to pay for it !
Público / International Viewpoint: World Social Forum in Belem - Radicalise the alternatives
BBC: Brazil holds alternative Davos
Reuters: Leftist forum ends in Amazon; capitalism seen dying
Pacific Free Press: S-O-S AMAZONIA: World Social Forum and Forest Defenders Unite
Upside Down World: The World Social Forum Returns to Brazil
Walden Bello: It is time to aim beyond capitalism
Abdul Khaliq: Is WSF Belem 2009 facing crisis of repetition?
Urban Movements Building Convergences at the WSF 2009
Shared concerns and issues emerging from the 1st science and democracy World Forum
Bloggar | Breytt 5.2.2009 kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 15:52
Og NATO verður mótmælt
Boðað hefur verið til mótmæalafundar við Hilton Nordica hótel kl. 18:30, sjá www.fridur.is.
Fyrir utan allt annað sem segja má um NATO má minna á kostnaðinn við NATO-aðildina, 1438,5 millljónir króna á þessu ári, sjá:
http://fridur.is/2009/01/09/fjarlog-2009-14-milljar%C3%B0ur-i-herna%C3%B0armal/
NATO-móttaka flutt á Nordica | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2009 | 12:47
„Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?“
Birtist í Dagblaðinu Nei (http://this.is/nei/) 27. jan. 2009
Í Morgunblaðinu sunnudaginn 25. janúar er athyglisverð auglýsing á bls. 26. Hún hefði kannski ekki verið sérlega athyglisverð fyrir septemberlok, þá hefði hún verið í stíl við allt. En nú, þegar þjóðfélagið logar stafnanna milli vegna afleiðinga einkavæðingar og brasks undanfarinna ára, vegna nýfrjálshyggjunnar, sem krafðist þess að allt færi á markað til að skapa tækifæri til gróða, nú þegar menn undrast orð og hugtök sem smám saman voru orðin sjálfstögð, þá vekur athygli mína auglýsing um ráðstefnu undir yfirskriftinni: Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?
Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu? Hvað er átt við? Tækifæri fyrir hvern? Fyrir sjúklingana, sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda? Tækifæri??
Í auglýsingunni stendur: Hvernig viljum við sjá heilbrigðisþjónustuna á Íslandi í framtíðinni? Og þar fyrir neðan: Hvaða tækifæri eru til staðar í heilbrigðisþjónustu og hvernig getum við nýtt þau? Við hver?
Ráðstefnan er á vegum Heilsulausna. Maður er orðin vanur því að geta fundið allan fjandann með því að gúgla, en Heilsulausnir með stórum staf fann ég ekki, nema eitthvað í sambandi við Rope Yoga, en einhvern veginn passaði það ekki. En skráning á ráðstefnuna er gegnum erla@heilsulausnir.is. Þessi ráðstefna verður laugardagsmorguninn 31. janúar. Fyrstur á dagskrá verður Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðissviðs HÍ. Síðan kemur erindi Maríu Bragadóttur, framkvæmdastjóra SALT health, Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu.
Salt Investments
Salt Investments heitir fyrirtæki eitt og má fræðast um það á heimasíðu þess, www.saltinvestments.com. Á lista yfir starfsmenn er María Bragadóttir Managing Director Health. Þar kemur líka fram að fyrirtækið er að meirihluta í eigu Róberts Wessmans, fyrrum forstjóra lyfjafyrirtækisins Actavis.
Salt Health er reyndar ekki skráð sérstaklega sem einhver deild Salt Investments á heimasíðunni. Þær deildir, sem þar eru skráðar eru: Salt Pharma, Salt Properties, Salt Constructions, Salt Education, Salt Green, Lazy Town og Capacent. Undir Salt Pharma er sagt að mikilvægur hluti af eignum Salt Investments sé hlutur þess í Actavis.
Undir Salt Education kemur fram að að Salt Investments á 60% í eignarhaldsfélagi sem hefur verið stofnað kringum Háskólann í Reykjavík. Rektor Háskólans í Reykjavík er Svafa Grönfeldt, áður aðstoðarforstjóri Actavis. Ef við höldum svo áfram kemur fram undir Salt Green að Salt Investments á núna veitingastaðina Grænn kostur og Maður lifandi.
Og svo er það Capacent, leiðandi þekkingarfyrirtæki með um 500 sérfræðinga á öllum Norðurlöndunum.
Auður í krafti kvenna
En aftur að ráðstefnunni. Dagskráin er svo sem ekkert grunsamleg að öðru leyti, það eru læknar og sjúkraþjálfarar með erindi eins og heildræn og samfelld heilbrigðisþjónusta og heilbrigðisþjónusta fyrir heilbrigði o.s.frv.
Fundarstjóri er Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdarstjóri Strategíu ehf.
Það er næstum jafnvonlaust að gúgla Strategía ehf. eins og Heilsulausnir. En samt ekki alveg. Það er vísað í gulu síðurnar og þar kemur fram að þetta er ráðgjafaþjónusta. Ekkert meira þar. En einnig er vísað í félagaskrá samtakanna Auður í krafti kvenna, þar sem Guðrún Ragnarsdóttir er félagi með ferilskrá sem sýnir býsna víðtæka reynslu í fyrirtækjarekstri, svo sem gæðastjóri Landsvirkjunar, forstöðumaður gæðastjórnunar Íslandsbanka og framkvæmdarstjóri þróunarsviðs BYKO. Og meðal stjórnunar- og nefndarstarfa: sat í gæðaráði Landspítala Íslands.
Félagaskrá þessara samtaka er reyndar áhugaverð og kveikir þá hugsun að kannski verði konur í fararbroddi næstu frjálshyggjubyltingar á Íslandi, svona undir kvenlegri sauðargæru, ef svo má segja, eða ærgæru.
Kannski má kalla þessi samtök klúbb. Þarna eru konur sem eru í stjórnunarstöðum í ýmsum fyrirtækjum, einkum bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Svo er þarna stjórnunarráðgjafi hjá Capacent, rektor Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi rektor reyndar líka, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Vistor hf., sem er leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum, dýraheilbrigðisvörum sem og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur á Íslandi (www.visitor.is), framkvæmdastjóri Maður lifandi, framkvæmdastjóri Artasan ehf., sem sérhæfir sig í sölu og ráðgjöf á vörum og lausnum sem stuðla að bættri heilsu, svo sem vítamínum, fæðubótaefnum og lausasölulyfjum (www.artasan.is), framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forstjóri Lyfjastofnunar, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og rekstrarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, svo fáeinar séu nefndar.
Tækifæri fyrir hvern?
Hér hefur verið farið vítt og breytt út af einni auglýsingu. Og eftir stendur spurningin: Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Og í framhaldi af henni: Tækifæri fyrir hverja? Einu sinni pældu menn í nýjum tækifærum í bankastarfsemi og fjármálaþjónustu. Núna í byrjun janúar, þegar heilbrigðisráðherra kynnti sparnaðartillögur í heilbrigðismálum og flutning verkefna frá Sankti Jósepsspítala í Hafnarfirði til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, kom fram að Róbert Wessman hefði verði eitthvað að skoða sig um þar. Í viðtali á mbl.is 9. janúar tekur framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (sem er félagi í Auður í krafti kvenna) vel í mögulegt samstarf sjúkrahússins við Róbert Wessman (http://tinyurl.com/batahb).
Ráðstefnan verður laugardagsmorguninn 31. janúar. Eftir hádegið mætum við væntanlega á Austurvöll til að mótmæla, en mótmæla hverju? Ríkisstjórnin fallin og stjórn Fjármálaeftirlitsins farin frá og kannski stjórn Seðlabankans líka. Kannski við getum þá farið að fylgjast betur með því sem er að gerast bak við tjöldin, fylgjast með nýjum tækifærum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.1.2009 | 12:22
Ísrael/Gaza 2009 - Júgóslavía/Kósovó 1999
Í mars 1999 hóf NATO loftárásir á Júgóslavíu. Ástæðan var sögð framferði Serba í Kósovó. Kósovó, sem að meirihluta var og er byggð Albönum, hafði tilheyrt Serbíu (sem var hluti af Júgóslavíu) í langan tíma. Kósovó-albanir höfðu sætt mismunun og um skeið hafði verið alvarlegt ástand í héraðinu. Um þrem árum fyrr hafði vopnuð frelsishreyfing farið að láta til sín taka meðal Kósovó-albana (UCK - ensk skammstöfun KLA). UCK gerði sig seka um ýmiskonar voðaverk gagnvart serbneska minnihlutanum í Kósovó og var talin hryðjuverkasamtök af mörgun, einnig gagnrýnendum serbneskra stjórnvalda (sjá t.d. http://www.senate.gov/~rpc/releases/1999/fr033199.htm). Haustið 1998 var ástandið betra og friðargæslulið á vegum ÖSE var í landinu. Upp úr áramótum fór spenna hinsvegar aftur vaxandi, fáein voðaverk voru framin, en þó hafði ekki komið til verulega alvarlegra átaka þegar ríki Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku töldu svo brýna ástæðu til að skerast í leikinn að NATO var látið hefja loftárásir á Júgóslavíu í mars.
Auðvitað eru Júgólavía/Kósovo 1999 og Ísrael/Gaza 2009 ekki fyllilega sambærileg, en þó eru viss líkindi þarna á milli. Og þegar þau eru skoðuð er sláandi hversu viðbrögðin eru ólík. Utanríkisráðherra hafnar algerlega að slíta stjórnmálasambandi, það var ekki einu sinni gert gagnvart Júgóslavíu undir Milosevic, segir hún (http://tinyurl.com/9z2w47). Nei, hinsvegar voru gerðar loftárásir á Júsgóslavíu. Ég er ekki að kalla eftir loftárásum á Ísrael. En það mætti kannski leita einhverra áhrifaríkari viðbragða en fordæmingar í orði.
Hörðustu árásir á Gasaborg til þessa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)