Meginverkefni stéttarfélaganna er að standa vörð um kjör félagsmanna sinna - og lágmarka arðránið. Og stéttarfélögin hafa afl, sameinuð hefur verkalýðshreyfingin mikið afl ef hún virkjar það. Stéttarfélögin mega ekki standa á hliðarlínunni meðan almenningur safnast saman á sjálfsprottnum fundum. Vissulega sitja þau ekki aðgerðalaus. Stéttarfélögin hafa meðal annars verið að gera kjarasamninga undanfarið ár og nú er framundan víðtækt samráð um launa- og kjarastefnu fram á næsta ár og gengur undir nafninu þjóðarsátt. Þessir samningar munu óhjákvæmilega mótast mjög af því efnahagslega neyðarástandi sem ríkir í landinu og það verður lagt mjög fast að verkalýðshreyfingunni að fara varlega, það verður vísað til drauganna tveggja, ótryggs atvinnuástands og verðbólgu.
Og vissulega þarf verkalýðshreyfingin að verjast þessum draugum, en hún má ekki heldur láta þá glepja sér sýn, hún má ekki horfa framhjá því að launafólk ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins og henni ber að lágmarka arðránið. Verkalýðshreyfingin verður að ganga til þessara samninga með skýr markmið sem kristallast í þrennu: að tryggja atvinnu, verja velferðarkerfið og koma í veg fyrir að kreppunni verði velt yfir á herðar launafólks. Í því felst meðal annars krafa um uppgjör á því sem gerðist og að allra ráða verði beitt til að ránsfengnum verði skilað.
Það er hamrað á að nú verði allir að standa saman, þjóðarsátt. En það er brýnt að muna eftir beittasta vopni verkalýðshreyfingarinnar, verkfallsvopninu. Við skulum reyna að ná þjóðarsátt um launa- og kjarastefnu, en ef sú stefna á að ganga út á að launafólk og alþýðan almennt eigi að bera kostnaðinn af kreppu auðvaldsins en ræningjarnir að sleppa meira og minna, ja, hvenær ef ekki þá er rétt að beita verkfallsvopninu? Félagsmenn í stéttarfélögum, brýnum félögin, brýnum forystuna, brýnum vopnin!
Sjá einnig á þessari bloggsíðu: