2.2.2009 | 22:20
Allsherjarverkfall!
Eftirfarandi grein birtist í Fréttabréfi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem kom út nú rétt fyrir helgina. Rétt er að geta þess að greinin var skrifuð fyrir tveimur vikum og síðan hefur margt gerst. Það var auðvitað von mín, þegar greinin var skrifuð, að ekki þyrfti að grípa til aðgerða á borð við verkföll. Sú von hefur óneitanlega styrkst, og vissulega hefur ný ríkisstjórn þegar orðið við ákveðnum kröfum mótmælahreyfingarinnar. En annars er greinin áfram í fullu gildi.
Kjarasamningarnir sem við gerðum í haust voru bráðabirgðasamningar. Nýlega var skollið á efnahagslegt neyðarástand og engar aðstæður til að gera öðruvísi samninga en þá voru gerðir. Vonlaust var að boða verkfall til að knýja fram frekari kröfur, það hefði bara valdið enn frekari vandræðum. Við urðum að skapa okkur frest fram yfir áramót. Öllum kjarasamningum, sem voru gerðir kringum mánaðamót nóvember og desember, fylgdi yfirlýsing þar sem samningsaðilar lýstu fullum vilja til að beita sér fyrir og taka þátt í að ná víðtækri sátt um launa- og kjarastefnu til ársins 2010 vegna þeirra kjarasamninga sem eru til endurskoðunar eigi síðar en 15. febrúar 2009 og þeirra kjarasamninga sem renna út 2009.
Það eru sjálfsagt ekki aðstæður til að einblína á verulegar launahækkanir að svo stöddu. Fjölmörg fyrirtæki er á barmi gjaldþrots, atvinnuleysi fer vaxandi og spáð er að 20 þúsund manns verði á atvinnuleysisskrá í apríl og maí. Hins vegar verðum við líka að líta til þess, að það efnahagslega neyðarástand, sem nú ríkir, stafar ekki af náttúruhamförum eða harðæri, heldur er það algerlega af mannavöldum. Braskarar nýttu sér aðstæður, sem stjórnvöld höfðu skapað, til að raka að sér fé sem þeir í raun stálu af almenningi.
Og þess vegna hefur alþýðan safnast saman, þúsundum saman, á Austurvelli á hverjum laugardegi í meira en fjóra mánuði, auk ótal annarra funda. Hún krefst þess að hinir ábyrgu verði dregnir til ábyrgðar, stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og þjófarnir sem frömdu glæpi sína í skjóli stjórnvalda. En það er ekki hlustað á hana, valdhafarnir kalla hana skríl.
En fólkið má ekki gleyma því að það á sér samtök sem voru stofnuð til að verja kjör þess. Flestir eru í einhverju stéttarfélagi. Almenningur verður að knýja stéttarfélög sín til taka undir kröfurnar og beita afli sínu til að þær verði virtar. Stéttarfélögin mega ekki sitja hjá meðan almennir félagar þeirra safnast saman á mótmælafundum.
Í komandi samningum verður verkalýðshreyfingin að taka undir þessar kröfur og hún verður að krefjast þess að allt verði gert til að ná þýfinu aftur af þjófunum. Almenningur ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins og það má aldrei verða sátt um að hann einn taki á sig byrðarnar af henni.
Við gerðum bráðarbirgðasamninga í haust og gáfum stjórnvöldum þannig frest til að bregast við. Og nú er kominn tími til að gera kröfur og þá fyrst og fremst á hendur stjórnvöldum, því það er þeirra að grípa til aðgerða til að jafna kjörin í landinu, tryggja stöðu atvinnuveganna, treysta velferðarkerfið og búa þannig í haginn til að tryggja kjör almennings.
Þessar kröfur þarf að útfæra og gera skýrar þannig að við getum fylgt þeim eftir. Og undir það þurfum við að búa okkur. Við þurfum að búa okkur undir hverskyns aðgerðir sem gætu orðið að gagni, þ.á.m. verkfallsaðgerðir. En þær verða að miðast við aðstæður, og þá má t.d. hugsa sér stutt táknrænt allsherjarverkfall og síðan skæruverföll dugi það ekki. Ef mesta arðrán Íslandssögunnar er ekki tilefni til að brýna verkfallsvopnið, hvenær þá?
Sjá líka:
Athugasemdir
Það verður fróðlegt að sjá hvernig verkalýðsforystan kemur sér hjá því að styðja kröfur almennra félagsmanna í stéttarfélögunum.
Björgvin R. Leifsson, 2.2.2009 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.