„Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?“

Birtist í Dagblaðinu Nei (http://this.is/nei/) 27. jan. 2009 

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 25. janúar er athyglisverð auglýsing á bls. 26. Hún hefði kannski ekki verið sérlega athyglisverð fyrir septemberlok, þá hefði hún verið í stíl við allt. En nú, þegar þjóðfélagið logar stafnanna milli vegna afleiðinga einkavæðingar og brasks undanfarinna ára, vegna nýfrjálshyggjunnar, sem krafðist þess að allt færi á markað til að skapa tækifæri til gróða, nú þegar menn undrast orð og hugtök sem smám saman voru orðin sjálfstögð, þá vekur athygli mína auglýsing um ráðstefnu undir yfirskriftinni: „Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?“ 

Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu? Hvað er átt við? Tækifæri fyrir hvern? Fyrir sjúklingana, sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda? Tækifæri?? 

Í auglýsingunni stendur: „Hvernig viljum við sjá heilbrigðisþjónustuna á Íslandi í framtíðinni?“ Og þar fyrir neðan: „Hvaða tækifæri eru til staðar í heilbrigðisþjónustu og hvernig getum við nýtt þau?“  Við hver? 

Ráðstefnan er á vegum Heilsulausna. Maður er orðin vanur því að geta fundið allan fjandann með því að „gúgla“, en „Heilsulausnir“ með stórum staf fann ég ekki, nema eitthvað í sambandi við Rope Yoga, en einhvern veginn passaði það ekki. En skráning á ráðstefnuna er gegnum erla@heilsulausnir.is.  Þessi ráðstefna verður laugardagsmorguninn 31. janúar. Fyrstur á dagskrá verður Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðissviðs HÍ. Síðan kemur erindi Maríu Bragadóttur, framkvæmdastjóra SALT health, „Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu“. 

Salt Investments

Salt Investments heitir fyrirtæki eitt og má fræðast um það á heimasíðu þess, www.saltinvestments.com. Á lista yfir starfsmenn er María Bragadóttir Managing Director – Health. Þar kemur líka fram að fyrirtækið er að meirihluta í eigu Róberts Wessmans, fyrrum forstjóra lyfjafyrirtækisins Actavis. 

Salt Health er reyndar ekki skráð sérstaklega sem einhver deild Salt Investments á heimasíðunni. Þær deildir, sem þar eru skráðar eru: Salt Pharma, Salt Properties, Salt Constructions, Salt Education, Salt Green, Lazy Town og Capacent. Undir „Salt Pharma“ er sagt að mikilvægur hluti af eignum Salt Investments sé hlutur þess í Actavis. 

Undir Salt Education kemur fram að að Salt Investments á 60% í eignarhaldsfélagi sem hefur verið stofnað kringum Háskólann í Reykjavík. Rektor Háskólans í Reykjavík er Svafa Grönfeldt, áður aðstoðarforstjóri Actavis. Ef við höldum svo áfram kemur fram undir Salt Green að Salt Investments á núna veitingastaðina Grænn kostur og Maður lifandi. 

Og svo er það Capacent, „leiðandi þekkingarfyrirtæki með um 500 sérfræðinga á öllum Norðurlöndunum.“ 

Auður í krafti kvenna

En aftur að ráðstefnunni. Dagskráin er svo sem ekkert „grunsamleg“ að öðru leyti, það eru læknar og sjúkraþjálfarar með erindi eins og „heildræn og samfelld heilbrigðisþjónusta“ og „heilbrigðisþjónusta fyrir heilbrigði“ o.s.frv. 

Fundarstjóri er Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdarstjóri Strategíu ehf. 

Það er næstum jafnvonlaust að „gúgla“ „Strategía ehf.“ eins og „Heilsulausnir“.  En samt ekki alveg. Það er vísað í gulu síðurnar og þar kemur fram að þetta er ráðgjafaþjónusta. Ekkert meira þar. En einnig er vísað í félagaskrá samtakanna Auður í krafti kvenna, þar sem Guðrún Ragnarsdóttir er félagi með ferilskrá sem sýnir býsna víðtæka reynslu í fyrirtækjarekstri, svo sem gæðastjóri Landsvirkjunar, forstöðumaður gæðastjórnunar Íslandsbanka og framkvæmdarstjóri þróunarsviðs BYKO. Og meðal stjórnunar- og nefndarstarfa: „sat í gæðaráði Landspítala Íslands“. 

Félagaskrá þessara samtaka er reyndar áhugaverð og kveikir þá hugsun að kannski verði konur í fararbroddi næstu frjálshyggjubyltingar á Íslandi, svona undir kvenlegri sauðargæru, ef svo má segja, eða ærgæru. 

Kannski má kalla þessi samtök klúbb. Þarna eru konur sem eru í stjórnunarstöðum í ýmsum fyrirtækjum, einkum bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Svo er þarna stjórnunarráðgjafi hjá Capacent, rektor Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi rektor reyndar líka, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Vistor hf., sem er „leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum, dýraheilbrigðisvörum sem og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur á Íslandi“ (www.visitor.is), framkvæmdastjóri Maður lifandi, framkvæmdastjóri Artasan ehf., sem sérhæfir sig „í sölu og ráðgjöf á vörum og lausnum sem stuðla að bættri heilsu, svo sem vítamínum, fæðubótaefnum og lausasölulyfjum“ (www.artasan.is), framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga hjá   Landspítala-háskólasjúkrahúsi, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forstjóri Lyfjastofnunar, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og rekstrarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, svo fáeinar séu nefndar. 

Tækifæri fyrir hvern?

Hér hefur verið farið vítt og breytt út af einni auglýsingu. Og eftir stendur spurningin: „Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi?“ Og í framhaldi af henni: „Tækifæri fyrir hverja?“ Einu sinni pældu menn í nýjum tækifærum í bankastarfsemi og fjármálaþjónustu. Núna í byrjun janúar, þegar heilbrigðisráðherra kynnti sparnaðartillögur í heilbrigðismálum og flutning verkefna frá Sankti Jósepsspítala í Hafnarfirði til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, kom fram að Róbert Wessman hefði verði eitthvað að skoða sig um þar. Í viðtali á mbl.is 9. janúar tekur framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (sem er félagi í Auður í krafti kvenna) vel í mögulegt samstarf sjúkrahússins við Róbert Wessman (http://tinyurl.com/batahb).  

Ráðstefnan verður laugardagsmorguninn 31. janúar. Eftir hádegið mætum við væntanlega á Austurvöll til að mótmæla, en mótmæla hverju? Ríkisstjórnin fallin og stjórn Fjármálaeftirlitsins farin frá og kannski stjórn Seðlabankans líka. Kannski við getum þá farið að fylgjast betur með því sem er að gerast bak við tjöldin, fylgjast með „nýjum tækifærum“. 

Einar Ólafsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Þakka verðuga ábendingu, Einar!  Þessu þarf að fylgjast grannt með.

Þessi Sigurður Guðmundsson Forseti á LSH, er væntanlega Siggi "gamli" Landi - eins og landlæknar eru oft kallaðir. Þar fer starfsbróðir sem undirrituð telur að megi fylgjast með, jafnt og mörgum alræmdum sem taldir eru upp hér að ofan. Ætli Forseta-titillinn hafi verið búinn til fyrir SG?  Hvað kemur næst? kannski Drottning og Kóngur Sparnaðardeildar LSH!

Hlédís, 27.1.2009 kl. 16:00

2 Smámynd: Páll Gröndal

Þakka þér fyrir Einar! Frábær upplýsingasöfnun.

Mér fallast alveg hendur. Er þjóðfélagið orðið svo gegnumsýrt af þessari gjaldþrota einkavæðingarstefnu að við fáum ekki hönd við reyst? Heilbrigðisráðherra er farinn frá, Guði sé lof, og væntanlega verður árás hans á heilsukerfið endurskoðað eða algjörlega fellt niður. En við þessar upplýsingar þínar setur að mér þunglyndi og svartsýni.

Stjórnin er farin frá og vonandi fylgir Davíð Oddsson ekki langt á eftir. En það er enginn skortur á verkefnum fyrir mótmæli á Austurvelli.

STÖNDUM VÖRÐ UM HEILSUÞJÓNUSTU LANDSINS!

EINKAVÆÐING HEILSUGEIRANS? - NEI TAKK!

Einar, á meðan fólk eins og þú ert vakandi og stendur sína vakt er svolítil von. En ansi verður róðurinn erfiður.

Þakka þér fyrir

Páll Gröndal, 28.1.2009 kl. 07:28

3 identicon

Takk Einar. Haltu endilega áfram að gúgla.

Sjöfn Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 11:47

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir þessar frábæru upplýsingar. Las hana samdægurs á neiinu- en gleymdi auðvitað að senda þér kveðju!

María Kristjánsdóttir, 9.2.2009 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband